fimmtudagur, mars 12, 2009
Svartur Köttur

Hvar ætli hann sé? Klukkan var orðin vel yfir tvö og hann var venjulega malandi fyrir framan arininn um þetta leyti. Ég leit út í niðdimma nóttina og sá varla neitt. Nema það sem endurskinið af tunglinu náði að lýsa ljósarglætu, nokkur einmana tré sem sköpuðu fíngert ískur í vindinum.

Tveimur klukkutímum seinna heyrði ég gætilegt klór á hurðinni. Ég fór og hleypti honum inn, og var ekki ánægður. Ég lét hann heyra það, hann átti ekkert að vera að þvælast svona lengi úti einn um nótt. Hann vissi upp á sig sökina og staulaðist niður a gæruna sína. Lútandi höfði og með skottið á milli lappanna. Ég settist aftur niður og hélt áfram að pára, og rifaði upp sumarið þegar hann gat varla tekið stuttan göngutúr án mín. Hann stökk alltaf upp í stól til mín og hjúfraði sig. Vafði upp á sig litla kleinu og malaði eins og allt væri fullkomið.

Hann gerði þetta ekki lengur. Einu skiptin sem við eyddum saman núorðið, við félagarnir, var þegar ég skammaði hann fyrir að hverfa svo dögum saman eða þegar ég hafði í hótunum við hann til að reyna að ná fram gömlu logunum. Gömlu ástinni. En það rann upp fyrir mér að ég væri þrjóskur og sjálfselskur.

Þegar ég hleypti honum út morguninn eftir tölti hann tignarlega nokkur skref áður en hann stöðvaði og leit til baka. Kolsvört augun voru einlæg og döpur. En við vissum það báðir; Þetta var í síðasta skipti sem við horfðumst í augu.

Myshkin ♥ 1:27 f.h.


fimmtudagur, nóvember 08, 2007
amor mortis

Hún gat ekki hafa meint þetta, hugsaði ég þegar ég lá í stofu 45 á deild E. Ég velti reyndar fyrir mér hvernig ég gæti verið að hugsa svona skýrt aðeins örfáum mínútum eftir að ég hafði fengið þriðja skammtinn af morfíni. Ég hafði heyrt að það væri yndislegt að uppfyllast af þessu hættulega efni, maður algjörlega hyrfi einhvert annað. Eða bara flýði inn í sjálfan sig. En ég gerði það ekki, ég gat ekki hætt að hugsa um þetta.

Það var þó varla hægt að segja að ég væri í molum, en sárið á síðunni var helvíti ljótt. Og mig klæjaði svona líka helvíti mikið í það. Aginn þurfti að vera djöfulli mikill til að maður klóraði sér ekki. Úff. Hvern var ég að blekkja, ekki einsog ég gæti klórað mér þótt ég v ildi, ég var algjörlega pikkfastur.

Taktur lífs mín tikkaði sinn vanagang á veggnum. Þegar eina sem þú getur horft á er veggklukkann verður veggklukkan þú. Eða þú verður veggklukkann, hvortsemer finnst þér allavega að hún sé það eina sem þú getur treyst á. Stöðugi takturinn í þessu fallvalta lífi.

Enginn hafði komið í heimsókn. Auðvitað hafði ég ekki verið þarna nema í nokkra klukkutíma en ég hefði svosem búist við nokkrum hlýlegum andlitum segjandi mér að þetta yrði allt í lagi. Auðvitað yrði þetta aldrei allt í lagi, en það er ágætt að heyra einhvern segja það. Bara svona til að maður gæti trúað lyginni í örskamma stund. Yljar manni örlítið um hjartarætur.

Ég sá þó loksins að hurðin byrjaði hallast upp á móti mér, einhver var að koma inn. Ég sá ljósa lokka laumast handan hurðarinnar og sæluylur fór strax um mig allan. Ég vissi það strax, hún var komin. Þegar hún labbaði í átt að rúminu mínu virti ég hana fyrir mér einsog þetta væri í síðasta skipti sem ég myndi sjá hana. Dökkgræn augun sem höfðu að geyma þennan leyndardómsfulla sjarma grípa mann strax, ég gæti starað í þau sem klukkutímum skiptir án þess að vita hvað tímanum liði. Mér þótti vænt um þessi blikandi augu. En ætli það sé ekki skínandi brosið sem virðist aldrei taka sér hlé sem er það mest áberandi, gæti brætt heilu ísjakana. Umkringt þrýstnum og safaríkum vörum sem virtust þrá að vera kysstar, en því miður var það ekki tilgangur heimsóknarinnar. Þegar hún var komin enn nær sá maður ljóst, fíngert hárið flaksast örlítið í gustinum og tíminn hefði getað stoppað. Hún var prinsessan í konungsríkinu sem landkönnuðir höfðu leitað að öldum saman án árangurs, algjör náttúruperla. Og prinsessan mín. Alltaf. Alltaf og aldrei.

Hún lagði höndina á bringuna á mér og spurði hvernig mér liði. Ég kom ekki upp neinu orði. Hvort það var útaf morfínvímunni eða bara vegna endorfínsflæðisins veit ég ekki, en mér hafði ekki liðið betur í margar vikur. Heit og örugg höndin strauk mér aðeins en þegar hún færði sig neðar fann ég fyrir sársauka í síðunni. Einsog undirmeðvitundin hefði sent boð út í líkamann. Ég mátti ekki gleyma, það var hún sem gaf mér þetta sár. Ég var hérna bara útaf henni. Ég þurfti að vakna upp af þessum vonlausa draumi, átta mig á því að þetta yrði aldrei neitt meira, fallöxin beið alltaf í nokkurra metra fjarlægð. Að bíða eftir að fá að láta ljós sitt skína, og það ljós skein vissulega skært.
En mér var sama. Ef hún vildi veita mér þessa ánægju, þótt það væri ekki nema í örfáar mínútur var mér sama. Ég fann að höndin á mér varð örlítið blaut. Ég þurfti ekki að hugsa lengi, ég vissi alveg hvað það var sem komst í tæri við höndina á mér. Sársaukinn varð meiri og meiri. Örlitli hnífurinn hennar var aftur byrjaður að stingast inn í síðuna á mér. Hún hvíslaði eitthvað í eyrað á mér en ég greindi ekki orðin. Það var örugglega eitthvað fallegt, henni einni líkt. Ég reyndi ekki að berjast á móti hárbeittu blaðinu sem virtist sökkva dýpra inn í mig með hverri sekúndunni. Ef þetta var það sem hún vildi var þetta líka það sem ég vildi. Ég myndi gera allt fyrir hana. Ég fann ómótstæðilegan ilminn af henni og gat ekki annað en brosað. Hún var þarna hjá mér. Einmitt einsog ég vildi hafa það. Höndin á mér hélt áfram að blotna en ég var hættur að finna fyrir sársaukanum. Hann var orðinn hluti af mér. Hluti af okkur.

Loksins fann ég að þetta var að verða búið, allur máttur var að hverfa frá mér. Hún hjúfraði sig upp að mér einsog hún væri að reyna að halda mér hjá sér aðeins lengur. En ég gat varla haldið augunum opnum lengur. Augnlokin byrjuðu að síga hægt. En svona vildi ég hafa það, mér gæti ekki hafa liðið betur. Við tvö saman. Augun voru alveg að lokast og ég vissi að það síðasta sem ég myndi væri hún. Yndislegt. Nú lokuðust loksins augun. Ég sá myndina af henni í huganum hverfa hægt og rólega. En brosið var enn á vörum mínum. Hún yrði mín að eilífu.

Tvær hjúkkur komu inn í herbergið, önnur gekk að lífvana búknum og tók púlsinn. ,,Hann er farinn”, sagði hún og hin kinkaði kolli og svaraði: ,,Hann var í of slæmu ástandi, það hlýtur að hafa verið síðasti morfínskammturinn sem fór með hann, það var of mikið”. ,,Það er samt alltaf sorglegt þegar þeir fara svona ungir”” sagði fyrri hjúkkann og dró lakið hægt yfir andlitið sem eitt sinn var mitt.

Myshkin ♥ 11:51 f.h.


fimmtudagur, október 25, 2007
Enn einu sinni; skammdegið

Að rölta um grá og mygluleg stræti miðbæjar Reykjavíkur tekur á, það verður að taka á. Útsýnið út um gluggann á efri hæð litla, hvíta, fúaða kofans í Lækjargötunni er líka búið að breytast. Grænu túnin sesm voru uppfull af lífi og ástföngnu pörin labbandi yfir þau, næstum kominn á Fríkirkjuveginn, eru horfin. Nú eru örfáir Kvenskælingjar sem bölva því að strætisvagnarnir þeirra stöðvi ekki nær þeirra litla sæta skóla það eina sem maður sér. Manni langar ekki lengur að skella sér út til ánægðra andlitanna og verða eitt þeirra. Maður vill bara fara aftur að sofa. Sofa þetta frá sér. Væri ekki sniðugt að leggjast í dvala eins og birnirnir?

Hinsvegar hefur skammdegið oft góða hluti í för með sér, allavega hjá mér. Eina stundina er manni að dreyma og þá næstu er maður að upplifa drauminn. Nýir og nýir hlutir að verða til og maður getur ekki annað en brosað svona örlítið. En aftur á móti; allt á sér endi. Gamla klisjan um upphafið og endinn virðist allavega vera ófjarri sannleikanum. Mun líða á löngu þar til maður spyr sig: Afhverju er mig ekki bara að dreyma ennþá?

En ég hef ákveðið að gleyma því í bili og lifa bara í draumnum brosandi. Í bili.

Myshkin ♥ 5:30 e.h.


föstudagur, maí 25, 2007
avabasin

Eftir margra vikna innilokun. Eða svona næstum. Og allt fjörið stendur sem hæst. Fimmta flaskan löngu farin af stað og nokkrir heppnir farnir á stefnumót við grasið eða að hlusta á tónlist.

Löngunin til að vera einn með hugsunum sínum á ný yfirbugar samt hinar. Kyrrð. Ró. Yndislegt.

Aðeins ein tilfinning gat yfirbugað þessa.

Myshkin ♥ 8:08 e.h.


miðvikudagur, apríl 25, 2007
Eitraða rósin

Afhverju viljum við alltaf fá það sem er utan seilingar?

Ég hafði séð rósina í garði nágrannans nú í næstum 6 mánuði. Með þennan fullkomna stilk, blöðin myndu standast hvaða gullinsniðsmælingu sem er og liturinn svo himneskur að ef þú horfðir of lengi fannst þér þú vera kominn einhvert allt annað. Einhvert þar sem þú áttir ekkert að vera. Það sem þú tekur ekki eftir við daglegt áhorf á þessu fallegustu rós sem finnst eru þyrnarnir. Banvænu þyrnarnir. Svo litlir og velmótaðir en skipta svo miklu. Næstum öllu.

Ég ákvað einn daginn að taka rósina, færa hana yfir til mín. Mundi nágranninn taka eftir því?

Nú var rósin komin yfir. Var mesta fegurð garðsins míns. Ég annaðist hana eins og ekkert annað í þessum heimi væri mikilvægara. Alltaf var það kæra rósin mín. Og hún varð enn fegurri. En smá saman tók ég eftir því að hin fallegu blómin mín í kringum kæru rósina mínu byrjuðu að fölna. Og deyja. Ég ákvað að loka augunum. Neita að samþykkja það sem ég og allir sem höfðu séð sáu að var í gangi. Hún var að drepa öll blómin mín.

Að lokum var ekkert eftir nema fölnaður garður. Uppfullur af mold og sandi. Og rósin. Rósin mín heittelskaða. Hversu lengi myndi afneitun duga? Hvað get ég reynt að trúa sjálfum mér um? Rósin var að drepa mig. Að innan. Hún lét allt snúast um að hugsa um hana og passa að laufin yrðu sem fullkomnust. Lauf sem skiptu engu máli. Loksins, mér til mikils greiða, dó rósin mín. Hvað ég syrgði hana lengi, ímyndaði mér að hún væri ennþá í garðinum mínum, blómstrandi sem aldrei fyrr.

Mánuði seinna, sá ég nýja rós læðast upp úr jörðinni hjá nágranna mínum. Ég fylgdist með hverri hreyfingu rósarinnar úr fölnaða garðinum mínum. Ég trúði því ekki fyrst, en það var óneitanlegt.

Rósin mín var komin aftur. Í garð nágranna míns.

Myshkin ♥ 7:23 f.h.


þriðjudagur, apríl 03, 2007
vesper

Heit golan var orðin óþægileg. Ég vildi frekar hafa rakann þegar ég reykti síðustu smókana af sígarettunni minni á veröndinni. Fólk var úti á götum að fagna. Stóri óvinurinn dáinn. Loksins. Mér fannst hljóðið í fagnaðarlátunum ógeðslegt. Fékk ælubragð í munninn. Ekki næstum eins fullnægjandi og það var í fyrstu. Fólkið var að öskra nafnið mitt.

Það bar fyrir útlínum tunglsins á himninum. Helvítis tunglið. Auli að láta sjá sig um miðjan dag. Á tíma sólarinnar, aldeilis djarfur. Dagurinn, tími sólarinnar, og þennan dag tími minn. Þegar mannskarinn elskaði mig loksins. Ég var einn af þeim. Og um leið versti óvinur.

Myshkin ♥ 1:46 f.h.


miðvikudagur, mars 28, 2007
vekjaraklukkan

Skerandi hljóðið öskraði aftur, aftur og aftur. Helvítis vekjaraklukkan. Hvers vegna vakna ég ekki við hana? Hún er búin að hringja djöfulli lengi. Alltof lengi. Ég sest upp í rúminu en langar samt ekki lengra. Væri ekki bara best að sleppa því öllu? En ekki núna. Ég næ ekki að sannfæra sjálfan mig í dag. Ég drattast inn í kalda sturtuna. Það er eitthvað að vatninu hérna, verður seint heitt. Jafnvel bara ekki. Þegar ég sé bílinn fyrir utan nenni ég ekki að vera pirraður þótt hann sé allur út í snjó. Ég bara sé ekki tilganginn lengur. Sleppi því líka að skafa. Nema örlítið gat á framrúðuna. Ég nenni heldur ekki að opna rúðuna eftir að ég kveiki mér í sígarettunni. Ekki eins og einhver annar sé að fara að keyra bílinn. Lonesome Town með helvítis rauðhærða gerpinu. Kósý.


Ég hef ekki hugmynd hvað gerist í vinnunni. Augun límd á klukkuna á veggnum. Stálputtarnir snúandi sér í kringum höndina sem þeir fá aldrei. Hún er með þá í krukku.
Klukkan er löngu orðin fjögur. Ég er ennþá hér. Hvenær ætlar þetta fólk að fatta að það er ekkert allt hægt. Þótt einhver vilji sé fyrir hendi. Ég nenni ekki heim. Hver er tilgangurinn í því að vera andvaka. Aftur. Einu sinni enn. Strákarnir að fara á barinn. Til hvers ætti ég að fara með? Hella mig fullan? Til hvers? Ég fer samt. Næ ég kannski að hugsa um eitthvað annað. Eitthvað annað en hana.

Eftir þrjú glös og heilu farmana af hundleiðinlegum samræðum stend ég upp. Kominn í ágætis skap, gæti jafnvel sofnað. Geng í átt að hurðinni, hún kemur á móti mér. Djöfullinn. Reyni að vera næs. Tekst það bara ágætlega. Get samt ekki hætt að hugsa um svefninn sem hún stal frá mér rétt í þessu. Helvítis. Ömurlegt að geta ekki fengið það sem maður vill.

Myshkin ♥ 10:02 e.h.